Sjáðu Satúrnus upp á sitt besta

Sævar Helgi Bragason 25. ágú. 2023 Fréttir

Satúrnus í gagnstöðu 27. ágúst og liggur þá best við athugun

  • Satúrnus 2019

Fátt er fegurra en Satúrnus í gegnum stjörnusjónauka. Í lok ágúst og byrjun september liggur reikistjarnan best við athugun því hún er í gagnstöðu 27. ágúst. 

Ups_FB_cover

Einu sinni á ári er Jörðin á milli sólar og Satúrnusar. Satúrnus er þá gegnt sólu frá Jörðu séð og kallast það gagnstaða (e. oppostion). Í ár (2023) er Satúrnus í gagnstöðu 27. ágúst. 

Við gagnstöðu (og vikurnar í kring) liggur reikistjarna best við athugun. Reikistjarnan er þá næst Jörðu, björtust á himni og á lofti allar myrkurstundir. 

Í lok ágúst er mjög auðvelt að finna Satúrnus, þökk sé tunglinu. Miðvikudagskvöldið 30. ágúst verður Satúrnus vinstra megin við næstum fullt tunglið. Fimmtudaginn 31. ágúst verður „blái ofurmáninn“ svo rétt fyrir neðan Satúrnus.

Fullt-tungl-31agust2023

Með berum augum er Satúrnus ljósgulur að sjá, lágt á lofti í Vatnsberanum í suðaustri um klukkan 22:30. Þá er orðið nógu dimmt til að auðvelt sé að sjá hann með berum augum og skoða í sjónauka. Satúrnus er hæstur á lofti í suðri um kl. 01:30. 

Þótt ekki sé enn orðið fullkomlega dimmt á Íslandi í lok ágúst er þetta engu að síður góðu tími til að skoða reikistjörnuna í gegnum litla stjörnusjónauka, meira að segja innan borgarmarkanna. 

Áttu stjörnukíki? Ef svo, þá hvet ég þig alveg eindregið til að skoða Satúrnus í ágúst og september. (Satúrnus sést samt á himni út árið en fjarlægist Jörð,)

Með aðeins 60mm (2,4 tommu) sjónauka við 40x stækkun sjást hringarnir auðveldlega sem og stærsta tunglið Títan ef vel er að gáð. Norðurhvel Satúrnusar hallar að Jörðinni og horfum við því ofan á hringana.

Saturnus-sjonauki

Hallinn er að minnka frá sjónarhóli okkar því í mars 2025 verður reikistjarnan á rönd frá Jörðu séð. Þann 6. maí sama ár verða jafndægur á Satúrnusi. 

Njóttu sjónarspilsins.