Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2015

Sævar Helgi Bragason 18. des. 2015 Fréttir

Stjörnufræði er myndræn vísindagrein. Ár hvert eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins, hvort sem er af stjörnuáhugafólki, stjörnufræðingum eða vélvæddum sendifulltrúum jarðarbúa í sólkerfinu.

  • Litadýrð Plútós. Mynd: NASA/JHUAPL/SRI

Margar þessara mynda eru gullfallegar, oft hreinustu listaverk, sem verðskulda að sem flestir fái notið.

Hér höfum við valið tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2015. Þessar myndir voru fyrst og fremst valdar út frá fegurð (sem er huglætt mat hvers og eins), en ekki síst vísindalegu. Við hverja mynd er lýsing á því sem fyrir augun ber. Viðfangsefnin eru nefnilega ekki síður áhugaverð en falleg.

Vísindabók Villa - Geimurinn og geimferðir eftir Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helga Bragason

10. Blóðrauður „ofurmáni“

Tunglmyrkvinn 28. september 2015. Mynd: Sævar Helgi Bragason
Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Sævar Helgi Bragason

Aðfaranótt 28. september 2015 varð almyrkvi á tungli. Myrkvinn sást vel frá landinu og fylgdust margir með þrátt fyrir að hann stæði yfir um miðja nótt. Þessi mynd er ekki valin vegna þess að okkur þyki hún svo glæsileg (þetta er ósköp dæmigerð tunglmyrkvamynd), heldur til þess að rifja upp þennan seinni myrkva af tveimur sem voru á árinu. Myrkvinn átti sér stað á sama tíma og tunglið var næst Jörðinni.

Sjá: Tunglmyrkvi 28. september 2015

9. Blár himinn Plútós

Lofthjúpur Plútós. Mynd NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute
Mynd: NASA/JHUAPL/SRI

Þegar New Horizons geimfar NASA hafði flogið framhjá Plútó, leit geimfarið tilbaka og fylgdist með hvernig sólin lýsti upp örþunnan lofthjúpin dvergreikistjörnunnar. Þessi glæsilega mynd sýnir að mistrið í lofthjúpi Plútós tekur á sig bláleitan blæ þegar sólarljósið lýsir það upp. Myndin sýnir hvernig útsýnið blasti við mannsauganu.

Sjá: Plútó: Lofthjúpur

8. Þriggja tungla sólmyrkvi

Í upphafi þrefaldrar þvergöngu Júpíterstunglanna Íó, Evrópu og Kallistó
Mynd: NASA/ESA & Hubble Heritage Team

Júpíter hefur 67 tungl, þar af fjögur stór — Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó — sem saman eru kölluð Galíleótunglin. Seinni hluta janúar 2015 marséruðu þrjú þeirra — Evrópa, Kallistó og Íó — fyrir framan litríkan lofthjúp gasrisans og ollu þreföldum sólmyrkva. Atburður sem þessi gerist aðeins einu sinni til tvisvar á áratug. Vinstra megin sést Kallistó en undir henni er skuggi frá Evrópu sem er utan myndarinnar. Hægra megin sést Íó upp við skuggann frá Kallistó en skuggi Íós er lengra til hægri.

Sjá: Mars Júpítertungla: Hubble fylgist með þreföldum sólmyrkva á Júpíter

7. Rósrauði svanurinn

Stjörnumyndunarsvæðið Messier 17. Mynd: ESO
Mynd: ESO

Stjörnur fæðast í stórum gas- og rykskýjum eða geimþokum í Vetrarbrautinni okkar. Hér sést stjörnuverksmiðja sem heitir Messier 17 en er stundum kölluð Svansþokan eða Omegaþokan og stundum Humarþokan. Rauði bjarminn stafar af glóandi vetnisgasi, aðalhráefnið í nýjar stjörnur. Á myndinni eru yngstu stjörnurnar bláleitar.

Sjá: Margnefnd geimrós

6. Blæjan

-Nornakústurinn í Slörþokunni, NGC 6960
Mynd: NASA/ESA & Hubble Heritage Team

Fyrir um 8000 árum sprakk stjarna í 2100 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Svaninum. Leifar hennar dreifðust um geiminn og rákust síðan á efni milli stjarnanna á 1,5 milljón km hraða á klukkustund og tók þá að glóa. Litadýrðin í þessum gasþráðum stafar af mismunandi og misheitu efni.

Sjá: Hubble skoðar Slörþokuna á ný

5. Andrómeda í háskerpu

Andrómeda í háskerpu
Mynd: NASA, ESA, J. Dalcanton, B. F. Williams, L. C. Johnson,PHAT teymið og R. Gendler

Á árinu birtu NASA og ESA stærstu og skýrustu mynd sem tekin hefur verið af næsta nágranna okkar í geimnu, Andrómeduvetrarbrautinni. Á myndinni sjást meira en 100 milljónir stjarna — örlítið brot af þeim 1000 milljörðum stjarna sem Andrómeda inniheldur — og mörg þúsund stjörnuþyrpingar á 40.000 ljósára breiðu svæði í skífu vetrarbrautarinnar. Myndin nýtur sín ekkert sérstaklega vel á litlum tölvuskjá enda þyrfti meira en 600 fimmtíu tommu háskerpusjónvörp til að sýna myndina alla. Til að skilja hve stór myndin raunverulega er mælum við með því að þú skoðir hana hér.

Sjá: Andrómeda í háskerpu — Hubble tekur skýrustu myndina til þessa af nágranna okkar í geimnum

4. Full Jörð — Fullt tungl

Fullt tungl, full Jörð. Mynd: NASA/NOAA/DSCOVR
Mynd: NASA/NOAA

Móðir Jörð og Máninn hennar. Þessi óvenjulega mynd var tekin með EPIC myndavélinni í DSCOVR gervitungli NASA 16. júlí 2015. Jörðin er að fullu upplýst sem og fjærhlið tunglsins, svo myndin er tekin í kringum nýtt tungl. Dökki bletturinn ofarlega á tunglinu er kallaður Moskvuhafið en á Jörðinni sést í norðurpólinn, Kyrrahaf og Norður- og Suður Ameríku.

Sjá: Jörðin

3. Sólmyrkvi 20. mars

Sólmyrkvi við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Mynd: Stephane Vetter
Mynd: © Stephane Vetter

Sólmyrkvinn föstudaginn 20. mars var ógleymanlegur. Veður var gott víðast hvar á landinu svot tug þúsundir skólabarna um land allt virtu dýrðina fyrir sér ásamt kennurum sínum. Franski ljósmyndarinn Stephane Vetter fylgdist með sólmyrkvanum við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Þaðan myrkvaði tunglið 99,45% sólarinnar. Myndin sýnir myrkvann frá upphafi til enda.

Sjá: Sólmyrkvi 20. mars 2015

2. Stjörnustöplar í Arnarþokunni

Stólpar sköpunarinnar í Arnarþokunni (Messier 16). Mynd: NASA/ESA og Hubble
Mynd: NASA/ESA/Hubble & Hubble Heritage Team

Tuttugu árum eftir að Hubble geimsjónaukinn tók eina frægustu mynd sína af gas- og rykstólpunum í Arnarþokunni beindi sjónaukinn myndavélum sínum að stólpunum á ný. Í þeim eru stjörnur að fæðast og sólkerfi að myndast í kringum þær. Bláa mistrið í kringum stólpana er efni sem ungu stjörnurnar í stólpunum hafa hitað og er að gufa upp.

Sjá: Hubble tekur nýja mynd af Stólpum sköpunarinnar

1. Plútó!

Litadýrð Plútós. Mynd: NASA/JHUAPL/SRI
Mynd: NASA/JHUAPL/SRI

Hinn 14. júlí 2015 var Plútó heimsóttur í fyrsta sinn þegar New Horizons þaut framhjá dvergreikistjörnunni fjarlægu. Í ljós kom ótrúlega fjölbreytt, unglegt og eitt áhugaverðasta yfirborð sem menn hafa séð í sólkerfinu. Ótrúlegar nærmyndir sýndu rúmlega 3 km há fjöll úr vatnsís, jökla úr nitri, nitursléttur með frosttiglum. Plútó reyndist líka rauðleitur vegna kolefnasambanda sem brotna niður í lofthjúpnum í útfjólubláa ljósinu frá sólinni og leggjast eins og rauður snjór á landslagið.

Árið 2015 var ár Plútós og því sérlega viðeigandi að besta stjörnuljósmynd ársins 2015 sé af þessum litla en heillandi hnetti.

Vísindabók Villa - Geimurinn og geimferðir eftir Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helga Bragason

Tengt efni

- Sævar Helgi Bragason