Stjörnumerki
Útlit merkjanna ræðst af hreyfingum stjarnanna sem þau mynda. Þessar stjörnur eru allar svo fjarlægar að hreyfing þeirra frá ári til árs er agnarlítil og sést alla jafna ekki með berum augum og því köllum þær fastastjörnur.
Á milljón árum getur hreyfing stjarnanna þó verið umtalsverð og ef við skoðum til dæmis hvernig Ljónsmerkið á eftir að líta út eftir milljón ár, sjáum við að Ljónið afmyndast. Merkið sem þá verður til minnir ef til vill heldur á útvarpssjónauka, sem verða þá væntanlega löngu úreltir. Þá verður hins vegar gaman að sjá hvernig stjörnuspekin metur persónuleika þess sem fæðist í útvarpssjónaukamerkinu!
Eins og áður segir er fjarlægðin milli stjarnanna í hverju merki mjög mismunandi. Ef við ferðumst nokkur hundruð eða þúsund ljósár út í geiminn og horfum á stjörnumerkið frá hlið, sjáum við allt aðra mynd af því en frá jörðu. Þá kemur í ljós að allar myndirnar á himninum eru tilviljanakenndar og því engin möguleiki á því að merkin geti haft áhrif á líf okkar. Þegar við tölum um að geimþoka, stjörnuþyrping eða vetrarbraut sé í ákveðnu merki, til dæmis Andrómeduvetrarbrautin, er í raun átt við að hún sé fyrir aftan merkið frá jörðu séð.
Stjörnumerki himinsins eru ekki raunveruleg en ímynduðu verurnar og hlutirnir á himninum eiga líklega rætur að rekja til menningarsamfélaga og stjörnufræðinga sem höfðu hagnýt gildi fyrir merkin. Megintilgangur merkjanna var að segja hvaða stjörnur voru hvar á hverjum tíma. Bændur til forna notuðu merkin til þess að vita hvenær skyldi sá og hvenær taka ætti upp uppskeruna, því sum merki sjást aðeins á sérstökum tíma ársins. Til þess að aðstoða sig við að muna merkin var gott að búa til persónur sem þau minntu ef til vill á.
Listi yfir stjörnumerkin
Hér undir er listi yfir öll 88 stjörnumerki himinhvolfsins. Íslensk heiti merkjanna eru úr Orðaskrá um stjörnufræði sem Stjarnvísindafélag íslands gaf út. Kortin sem fylgja voru útbúin af Alþjóðasambandi stjarnfræðinga og Sky & Telesope tímaritinu (Roger Sinnott & Rick Fienberg) en Stjörnufræðivefurinn fékk leyfi til að íslenska þau. Hægt er að smella á kortin og sækja prentvænar útgáfur á pdf-formi. Á kortunum eru tiltekin áhugaverð djúpfyrirbæri sem stjörnuáhugafólk getur séð með sínum eigin sjónaukum. Lykillinn hér undir skýrir táknin á kortunum.
Myndirnar af stjörnumerkjunum eru úr stjörnufræðiforritinu Stellarium. Forritið er ókeypis, á íslensku og virkar bæði fyrir Windows og Apple stýrikerfi. Hægt er að hlaða því niður á sérstakri vefsíðu fyrir íslenska útgáfu Stellarium.
Íslenskt heiti | Latneskt heiti | Eignarfall á latínu | Sést frá Íslandi | Áhugaverð fyrirbæri | Kort | Mynd |
---|---|---|---|---|---|---|
Altarið | Ara | Arae | Nei | |||
Andrómeda | Andromeda | Andromedae | Já | M31, M32, M110 | ||
Áttavitinn | Pyxis | Pyxidis | Nei | NGC 2818 | ||
Áttungurinn | Octans | Octanis | Nei | |||
Bereníkuhaddur | Coma Berenices | Comae Berenices | Já | M53, M64, M85, M88, M91, M98, M99, M100, NGC 4565 | ||
Bikarinn | Crater | Crateris | Að hluta | |||
Bogmaðurinn | Sagittarius | Sagittarii | Að hluta | M8, M17, M18, M20, M21, M22, M23, M24, M25, M28, M54, M55, M69, M70, M75 | ||
Borðið | Mensa | Mensae | Nei | Stóra-Magellanskýið (að hluta) | ||
Drekinn | Draco | Draconis | Já | M102, Kattaraugað | ||
Dúfan | Columba | Columbae | Nei | |||
Dælan | Antlia | Antliae | Nei | NGC 2997 | ||
Eðlan | Lacerta | Lacertae | Já | |||
Einhyrningurinn | Monoceros | Monocerotis | Já | M50, Rósettuþokan | ||
Fiskarnir | Pisces | Piscium | Já | M74 | ||
Fljótið | Eridanus | Eridani | Að hluta | |||
Flugan | Musca | Muscae | Nei | NGC 4833 | ||
Flugfiskurinn | Volans | Volanis | Nei | |||
Folinn | Equuleus | Equulei | Já | |||
Fönix | Phoenix | Phoenicis | Nei | |||
Gaupan | Lynx | Lyncis | Já | |||
Gíraffinn | Camelopardalis | Camelopardalis | Já | |||
Harpan | Lyra | Lyrae | Já | M56, M57 | ||
Herkúles | Hercules | Herculis | Já | M13, M92 | ||
Hérinn | Lepus | Lepors | Að hluta | M79 | ||
Hjarðmaðurinn | Boötes | Boötis | Já | |||
Hornmátið | Norma | Normae | Nei | |||
Hrafninn | Corvus | Corvi | Að hluta | NGC 4038/4039 | ||
Hringfarinn | Circinus | Circini | Nei | |||
Hrúturinn | Aries | Arietis | Já | |||
Hvalurinn | Cetus | Ceti | Að hluta | M77 | ||
Höfrungurinn | Delphinus | Delphini | Já | |||
Höggormurinn | Serpens | Serpentis | Já | M5, M16 | ||
Indíáninn | Indus | Indi | Nei | |||
Kamelljónið | Chamaeleon | Chamaeleontis | Nei | |||
Kassíópeia | Cassiopeia | Cassiopeiae | Já | M52, M103 | ||
Kjölurinn | Carina | Carinae | Nei | Eta Carinae, Kjalarþokan | ||
Klukkan | Horologium | Horologii | Nei | NGC 1512 | ||
Krabbinn | Cancer | Cancri | Já | M44, M67 | ||
Lagarormurinn | Hydrus | Hydri | Nei | |||
Litlaljón | Leo Minor | Leonis Minoris | Já | |||
Litlibjörn | Ursa Minor | Ursa Minoris | Já | |||
Litlihundur | Canis Minor | Canis Minoris | Já | |||
Litlirefur | Vulpecula | Vulpeculae | Já | M27, Herðatréð | ||
Ljónið | Leo | Leonis | Já | M65, M66, M95, M96, M105, NGC 3628 | ||
Mannfákurinn | Centaurus | Centauri | Nei | Omega Centauri, Centaurus A | ||
Málarinn | Pictor | Pictoris | Nei | NGC 1705 | ||
Meitillinn | Caelum | Caeli | Nei | |||
Meyjan (Mærin) | Virgo | Virginis | Að hluta | M49, M58, M59, M60, M61, M80, M84, M86, M87, M89, M104 | ||
Myndhöggvarinn | Sculptor | Sculptoris | Nei | NGC 55, NGC 253, NGC 300 | ||
Naðurvaldi | Ophiuchus | Ophiuchi | Að hluta | M9, M10, M12, M14, M19, M62, M107 | ||
Nautið | Tauris | Tauri | Já | M1, M45 (Sjöstirnið) | ||
Netið | Reticulum | Reticuli | Nei | NGC 1313 | ||
Norðurkórónan | Corona Borealis | Coronae Borealis | Já | |||
Ofninn | Fornax | Fornacis | Nei | |||
Óríon | Orion | Orionis | Já | M42, M43, M78, Riddaraþokan, Logaþokan | ||
Paradísarfuglinn | Apus | Apodi | Nei | |||
Páfuglinn | Pavo | Pavonis | Nei | NGC 6744, NGC 6752 | ||
Pegasus | Pegasus | Pegasi | Já | M15 | ||
Perseifur | Perseus | Persei | Já | M34, M76, NGC 869 og NGC 884 | ||
Sefeus | Cepheus | Cephei | Já | |||
Seglið | Vela | Velorum | Nei | |||
Sextantinn | Sextans | Sextanis | Já | |||
Sjónaukinn | Telescopium | Telescopii | Nei | |||
Skjöldurinn | Scutum | Scuti | Já | M11, M26 | ||
Skuturinn | Puppis | Puppis | Að hluta | M46, M47, M93 | ||
Smásjáin | Microscopium | Microscopii | Nei | |||
Sporðdrekinn | Scorpius | Scorpii | Að hluta | M4, M6, M7, M80 | ||
Steingeitin | Capricornus | Capricorni | Að hluta | M30 | ||
Stóribjörn | Ursa Major | Ursa Majori | Já | M40, M81, M82, M97, M101, M108, M109 | ||
Stórihundur | Canis Major | Canis Majoris | Að hluta | M41, VY Canis Majoris | ||
Suðurfiskurinn | Piscis Austrinus | Piscis Austrini | Nei | Fomalhaut | ||
Suðurkórónan | Corona Australis | Coronae Australis | Nei | |||
Suðurkrossinn | Crux | Crucis | Nei | Kolapokinn, Skartgripaskrínið | ||
Suðurþríhyrningurinn | Triangulum Australe | Trianguli Australis | Nei | |||
Svanurinn | Cygnus | Cygni | Já | Slörþokan, Norður Ameríkuþokan | ||
Sverðfiskurinn | Dorado | Doradus | Nei | Stóra-Magellanskýið, Tarantúluþokan | ||
Tranan | Grus | Gruis | Nei | |||
Túkaninn | Tucana | Tucanae | Nei | Litla Magellanskýið, 47 Tucanae | ||
Tvíburarnir | Gemini | Geminorum | Já | M35, Eskimóaþokan | ||
Úlfurinn | Lupus | Lupi | Nei | |||
Vatnaskrímslið | Hydra | Hydrae | Að hluta | M48, M68, M83 | ||
Vatnsberinn | Aquarius | Aquarii | Að hluta | M2, M72, M73, NGC 7009, NGC 7293 | ||
Veiðihundarnir | Canes Venatici | Canum Venaticorum | Já | M3, M51, M63, M94, M106 | ||
Vogin | Libra | Librae | Að hluta | |||
Þríhyrningurinn | Triangulum | Trianguli | Já | M33 | ||
Ökumaðurinn | Auriga | Aurigae | Já | M36, M37, M38 | ||
Örin | Sagitta | Sagittae | Já | M71 | ||
Örninn | Aquila | Aquilae | Já | NGC 6751 |
Stjörnumerki Ptólmæosar
Sýn listamanns á fjölfræðingnum Kládíusi Ptólmæosi. |
Þau merki sem við þekkjum í dag eru byggð á hópi 48 grískra persóna sem Kládíus Ptólmæos frá Alexandríu skráði í rit sitt Almagest um 150 e.Kr. Önnur menningarsamfélög höfðu sín merki eins og Forn-Egyptar og Kínverjar en Egyptar teiknuðu upp óvenjulegri merki á borð við kött og flóðhest svo dæmi séu tekin.
Rit Ptólmæosar inniheldur mikilvægustu stjörnumerkin sem sáust frá breiddargráðu Alexandríu, þar sem nú er Kaíró höfuðborg Egyptalands. Á meðal þeirra eru nokkur merki sem margir þekkja ef til vill, eins og til dæmis birnirnir tveir, Svanurinn, Herkúles, Vatnaskrímslið og Vatnsberinn ásamt merkjum dýrahringsins. Í riti hans er einnig að finna nokkur smærri, óskýrari merki á borð við Folann og Örina.
Sagt hefur verið að himininn sé eins og goðfræðileg myndabók. Á himninum er nefnilega að finna persónur úr mörgum frægum goðsögum, til dæmis flestar persónurnar úr sögunum af Perseifi – þar á meðal sjávarskrímsli eitt sem þó er betur þekkt í dag sem meinlaus hvalur. Á himninum er líka að finna veiðimanninn mikla Óríon sem sest niður fyrir sjóndeildarhringinn og mundar kylfu sína í átt til Nautsins. Þegar Óríon sest, rís drápsvera hans Sporðdrekinn og beinir eiturodda sínum að honum; Herkúles liggur í norðri ásamt fórnarlambi sínu Ljóninu.
Önnur stjörnumerki
Stjörnumerki Ptólmæosar þöktu þó ekki allan himininn og milli þeirra voru skörð sem óhjákvæmilega varð að fylla. Menn bættu þá við nýjum merkjum, stundum með því að breyta upprunalegu mörkunum. Á síðustu árum 16. aldar bjuggu tveir hollenskir sæfarar, Pieter Drikszoon Keyser (1540-96) og Fredrick de Houtman (1571-1627), til tólf ný stjörnumerki á suðurhimininn, þar sem grísku stjörnufræðingarnir sáu ekki til. Hollenski kortagerðamaðurinn Petrus Plancius (1552-1622) bætti þremur merkjum við þau sem Grikkir þekktu og aðskildi hann stjörnurnar í Suðurkrossinum og Mannfáknum. Enn síðar varð að skipta suðurhimninum í fleiri merki og sum heitin bera óneitanlega keim af nútímanum; þar er til dæmis að finna Sjónaukann, Smásjána og Loftdæluna. Á miðri 18. öld kláruðu menn svo að kortleggja suðurhimininn þegar franski stjörnufræðingurinn Nicolas de Lacaille (1713-63) bjó til fjórtán ný merki og skipti Argó Navis í þrjú merki; Kjölinn, Skutinn og Seglið en upprunalega merkið þótti ekki skynsamlegt.
Hinn merki þýski stjörnufræðingur Jóhannes Hevelíus (1611-87) lauk svo við að kortleggja norðurhimininn - eins og við þekkjum hann í dag - árið 1687. Hevelíus kynnti nokkrar nýjar myndir en af þeim þekkjast sjö enn í dag. Mörk Alþjóðasambands stjarnfræðinga voru svo samþykkt árið 1930 með örlitlum tilbreytingum.
Í gegnum aldirnar hefur oft verið stungið upp á breytingum á stjörnumerkjunum. Árið 1688 stakk til að mynda maður að nafni Erhard Weigel upp á því að stjörnumerkjunum skyldi breytt. Þau áttu að tákna skjaldarmerki hvers lands í Evrópu til heiðurs konungsfjölskyldunum. Þannig átti til dæmis Ljón og Einhyrningur að tákna England. Stjörnumerkin væru þá miklu flóknari en þau eru nú og sem betur fer var hlaupið frá þessari slæmu hugmynd.
Pólhverf stjörnumerki
Af stjörnumerkjunum 88 sjást 53 merki að öllu leyti eða að hluta frá Íslandi. Nokkur merkjanna eru pólhverf frá Íslandi séð, eins og Stóribjörn, Kassíópeia og fleiri, en með því er átt við að þau rísa hvorki né setjast á himinhvelfingunni frá okkur séð, heldur hringsóla um himinpólinn.
Þeir sem hafa varið stundarkorni í stjörnuskoðun utandyra hafa margir tekið eftir því að stjörnumerkin virðast færast. Ef við gætum fylgst með næturhimninum í heilan sólarhring sæjum við himinhvelfinguna snúast einn hring um Pólstjörnuna. Að sjálfsögðu er það ekki himininn sem snýst heldur snýst jörðin einn hring um sjálfa sig á hverjum sólarhring.
Snúningur jarðar um sólu hefur einnig áhrif. Okkur virðist sem sólin flakki á milli stjörnumerkja dýrahringsins en í raun er það jörðin sem snýst heilan hring umhverfis sólina á einu ári. Á hringferðinni sjást síðan ólík mynstur stjarna á bak við sólina (stjörnumerki dýrahringsins). Ferðalag jarðarinnar umhverfis sólina veldur því einnig að stjörnumerkin eru alltaf á nýjum stað á himninum eftir því sem líður á veturinn. Til að mynda rís Óríon upp á himininn síðla nætur á haustin en sést strax eftir að myrkur skellur á í febrúar og mars.
Að læra á stjörnuhimininn
Það tekur áhugamenn mjög mislangan tíma að átta sig á næturhimninum, hvernig hann hreyfist og hvar á að leita að áhugaverðum fyrirbærum til skoðunar. Til þess að læra að þekkja stjörnumerkin getur verið gott að fara að heiman án sjónauka (nema e.t.v. handsjónauka) og finna sér góðan stað þar sem truflun vegna götuljósa er í lágmarki. Stjörnukort, vasaljós (helst með rauðu ljósi til þess að skemma sem minnst aðlögun augnanna að náttmyrkrinu), hlý föt og heitt kakó er allt sem þarf að hafa með í farteskinu þegar haldið er á vit stjörnumerkjanna. Þessi grein er hugsuð sem hjálpargagn fyrir stjörnuáhugamenn sem vilja læra að þekkja stjörnumerkin. Það er þó ekki svo að maður læri að þekkja öll merkin á einu kvöldi (frá Íslandi sjást yfir 50 stjörnumerki!) heldur er gott að miða við að læra eitt stjörnumerki á kvöldi og rifja í leiðinni upp kunnuleg stjörnumerki sem sjást á himninum. Áður en langt um líður er staðsetning tíu til tuttugu stjörnumerkja komin á hreint og þá er auðveldara að finna ný stjörnumerki og fyrirbæri út frá þeim sem komin eru á hreint í kollinum.
Til þess að hægt sé að læra stjörnumerkin er nauðsynlegt að verða sér úti um stjörnukort eða hringskífu með stjörnumerkjunum. Í Íslenskum stjörnuatlasi eru kort sem sýna stjörnumerkin sem sjást frá Íslandi og bókinni fylgir einnig hringskífa sem miðast við Ísland og er hentugt að taka með sér í stjörnuskoðun. Stjörnukort er að finna í sumum landabréfabókum sem gefnar hafa verið út fyrir grunnskóla og við á Stjörnufræðivefnum gefum út nýtt stjörnukort í prentvænni útgáfu í hverjum mánuði. Ennfremur mælum við með Starry Night hugbúnaðinum fyrir þá sem vilja læra merkin og geta prentað út eigin stjörnukort.
Heimildir:
-
Kaler, James. 2002. The Ever-Changing Sky: A Guide to the Celestial Sphere. Cambridge University Press, Massachusetts.
-
Sagan, Carl. 1980. Cosmos. Random House, New York.
-
Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
-
Ensk-íslensk orðaskrá úr stjörnufræði á vef Almanaks Háskóla Íslands
Hvernig vitna skal í þessa grein
-
Sverrir Guðmundsson, Sævar Helgi Bragason og Tryggvi Kristmar Tryggvason (2010). Stjörnumerkin. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/stjornumerkin (sótt: DAGSETNING).