Stjörnufræði er einstaklega myndræn vísindagrein. Ár hvert eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins, hvort sem er af stjörnuáhugafólki, stjörnufræðingum eða vélrænum sendiherrum jarðarbúa úti í sólkerfinu. Margar þessara mynda eru gullfallegar, oft hreinustu listaverk, sem verðskulda að sem flestir fái notið.
Hér undir höfum við valið tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2011. Þessar myndir voru fyrst og fremst valdar út frá fegurð (sem er huglætt mat hvers og eins), en ekki síður vísindalegu. Við hverja mynd er lýsing á því sem fyrir augum ber. Viðfangsefnin eru nefnilega ekki síður áhugaverð en falleg.
Njótið!
10. Stormur bítur í skottið á sér
Lofthjúpur Satúrnusar er nístingskaldur og alla jafna kyrrlátur og sviplaus. En um það bil einu sinni á hverju Satúrnusarári (um þrjátíu jarðár), þegar vorar á norðurhvelinu, byrjar einhver ólga í skýjaþykkninu sem brýst út sem mikill stormur. Segja mætti að á Satúrnusi sé stormurinn „vorboðinn ljúfi“.
Í byrjun árs geysaði slíkur stormur. Svo stór varð hann að hann umlék alla reikistjörnuna og beit að lokum í skottið á sér. Vindhraðinn náði ef til vill um 500 m/s en þetta er stærsti og öflugasti stormur sem menn hafa séð á Satúrnusi.
Cassini geimfar NASA tók þessa fallegu mynd af skrugguveðrinu í febrúarlok, tólf vikum eftir að stormsins varð fyrst vart. Þunnir hringarnir varpa breiðum skuggum á suðurhvelið. Þrumur og eldingar sáust og heyrðust í mælitækjum geimfarsins en þær urðu til við núning steypiregns og hagléla í skýjum Satúrnusar.
Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI
9. Flóttastjarna á fleygiferð
Stjarnan á þessari óvenjulegu mynd heitir Zeta Ophiuchi. Hún er í 450 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Naðurvalda, blá og massamikil á fleygiferð um geiminn, nærri 90 þúsund km hraða á klukkustund. Eitt sinn tilheyrði hún tvístirnakerfi en þegar förunauturinn sprakk þeytti hann Zeta Ophiuchi á hraðferð um geiminn.
Zeta Ophiuchi er stór stjarna sem gefur frá sér öflugan vind. Vindurinn rekst á ryk og gas sem liggur milli stjarna, þjappar því saman og lýsir það upp. Myndin sýnir afleiðingarnar glögglega en hún var tekin með WISE, innrauðum geimsjónauka NASA. Græni liturinn sýnir venjulegt óraskað ryk en guli liturinn sýnir hvar rykið rekst á vindinn frá stjörnunni. Úr verður myndun sem svipar mjög til stafnhöggs sem til verður þegar skip klífur vatn en á öllu stærri kvarða.
Mynd: NASA/JPL-Caltech/UCLA
8. Tignarlegt risasólgos
Í febrúarlok 2011 varð sérstaklega tignarlegt sólgos á sólinni okkar. Í rúmar 90 mínútur stóð glæsileg slæða úr næstum milljón gráðu heitu rafgasi upp úr sólinni og bylgjaðist eins og fegurstu norðurljós. Útfjólublá augu Solar Dynamics Observatory geimfars NASA fylgdist grannt með sýningunni í einstökum smáatriðum. Hluti efnisins slapp úr krumlum sólar og streymdi út í geiminn en annað féll aftur niður til hennar.
Stjörnufræðingar útbjuggu myndskeið af atburðinum sem sjá má hér (.mov skrá, mælum með að þú hægri smellir og gerir „Save as“). Sjón er sögu ríkari.
Mynd: NASA/Goddard Space Flight Center
7. Himneskur svanur
Á næturhimninum eru ótalmargar glæsilegar geimþokur. Ein þeirra er Messier 17 sem hér sést á mynd sem tekin var með VLT Survey Telescope, nýjum kortlagningarsjónauka ESO.
Messier 17 er stjörnumyndunarsvæði í 5.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum. Þokan er úr gasi og ryki sem ungar, heitar og þungar stjörnur, faldar í þokunni, móta og lýsa upp með sterkri útfjólublárri geislun og öflugum stjörnuvindum. Í þokunni er efni sem dygði í að minnsta kosti 800 sólir.
Í gegnum litla stjörnusjónauka minnir þessi geimþoka marga á gríska bókstafinn omega, á meðan aðrir sjá svan með áberandi langan en bogin háls. Er hún þess vegna einnig þekkt sem Omegaþokan eða Svansþokan.
Sjá upprunalegu fréttina á vefsíðu ESO.
Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Þakkir: OmegaCen/Astro-WISE/Kapteyn Institute
6. Blómlegur gígur
Hér sést ónefndur nokkurra km breiður gígur á tunglinu. Myndina tók Lunar Reconnaissance Orbiter geimfar NASA sem hefur hringsólað um mánann frá árinu 2009.
Fyrir óralöngu rakst stærðarinnar loftsteinn á tunglið. Við áreksturinn þeyttist töluvert magn af ryki og bergi upp á við en féll aftur niður á yfirborðið eins og teppi. Úr varð þetta fallega mynstur sem minnir dálítið á blóm. Ljósasta efnið er næst gígnum en er utar dregur þynnist það og sýnist dekkra.
Ef vel er að gáð sjást stærðarinnar björg í kringum gíginn en líka smærri gígar. Þeir hafa eflaust orðið til þegar stærstu brotinn skullu niður aftur.
Á tunglinu er ekkert andrúmsloft svo öll veðrun er löturhæg. Eina veðrunin er af völdum stöku loftsteina sem berja á yfirborðinu, sólvindsins og dægursveiflu hita. Mynstrið er bjart sem segir okkur að gígurinn er ungur, að minnsta kosti á mælikvarða tunglsins, en hann varð til um svipað leyti og risaeðlurnar réðu ríkjum á jörðinni.
Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University
5. Litrík Tarantúla
Tarantúluþokan er eitt allra fegursta fyrirbæri næturhiminsins. Hún er í Stóra Magellansskýinu og er sú bjartasta sinnar tegundar sem stjörnufræðingar hafa séð í nágrenni okkar í alheiminum.
Á þessari mynd Hubble geimsjónaukans sjást litríkar gas- og rykslæður Tarantúlunnar. Dökkleitar slæður liggja þvers og kruss eftir að sprengistjarna lét að sér kveða. Þegar stjarnan sprakk skilaði hún aftur til skýsins þeim frumefnum sem mynduðu hana. Úr sömu efnum gætu aðrar stjörnur orðið til.
Tarantúluþokan er uppfull af ungum, nýmynduðum stjörnum sem gefa frá sér skært útfjólublátt ljós. Ljósið er svo orkuríkt að það rafar gasið svo það verður rauðglóandi. Fyrir vikið verður ljós Tarantúlunnar svo skært að þótt hún sé í um 160.000 ljósára fjarlægð, langt fyrir utan Vetrarbrautina okkar, er hún sýnileg með berum augum á stjörnubjörtu kvöldi frá suðurhveli jarðar.
Í miðri Tarantúluþokunni er gríðarstór og björt stjörnuþyrping. Í henni er nýuppgötvuð stjarna, RMC 136a1, þyngsta stjarna sem fundist hefur, næstum 300 sinnum massameiri en sólin.
Sjá einnig upprunalegu fréttina á Stjörnufræðivefnum.
Mynd: NASA/ESA
4. Vetrarbraut í nærmynd
Hér sést nærmynd af harla óvenjulegri vetrarbraut. Hún nefnist Centaurus A og er tiltölulega nálægt okkur á stjarnfræðilegan mælikvarða, eða í aðeins um 11 milljón ljósára fjarlægð. Þvert í gegnum hana liggja þykkar og ógegnsæjar rykslæður sem hleypa sýnilegu ljósi ekki í gegn til okkar. Innan þeirra og á bakvið er aragrúi stjarna.
Centaurus A ber öll merki þess að hafa rekist á og runnið saman við aðra vetrarbraut. Höggbylgjur sem mynduðust í hamförunum urðu til þess að ský úr vetnisgasi tóku að rekast saman. Nú er þar mikil stjörnumyndun eins og sjá má á afskekktum svæðum og rauðum flekkum á nærmynd Hubblessjónaukans.
Í þéttum kjarna Centaurus A hvílir líka gríðarstórt og mjög virkt svarthol sem gleypir í sig efni í gríð og erg.
Sjá einnig upprunalegu fréttina á Stjörnufræðivefnum.
Mynd: NASA/ESA
3. Vetrarbrautarrós
Hubblessjónauki NASA og ESA fagnaði 21 árs afmæli sínu í geimnum á árinu. Af því tilefni var sjónaukanum beint að sérstaklega myndrænu vetrarbrautatvíeyki sem kallast Arp 273 og er í 300 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni.
Í Arp 273 eru tvær þyrilþokur sem eru í þann veginn að renna saman í eina. Síðustu ármilljónirnar hafa þær stigið flókinn dans undir stjórn þyngdarkraftsins. Ljóst er að mikið hefur gengið á því báðar hafa aflagað hvor aðra með þyngdartogi sínu.
Efri þyrilþokan er talsvert stærri en sú neðri. Frá okkar sjónarhóli er smærri þokan nánast á rönd en í miðju hennar eru merki um hrinu stjörnumyndunar sem hófst vegna nálægðarinnar við nágrannann. Nokkrir tugir þúsunda ljósára skilja þyrilþokurnar að en á myndinni sést örþunn brú úr stjörnum sem tengir þær saman.
Bláu kekkirnir í efri þyrilþokunni eru þyrpingar ungra, mjög bjartra og heitra stjarna sem gefa frá sér sterkt útfjólublátt ljós. Svo virðist sem stóri, ytri þyrilarmurinn sé hringlaga en slíkt einkenni verður til þegar vetrarbrautir fara í gegnum hvor aðra. Því er útlit fyrir að lítil fylgivetrarbraut hafi steypt sér í gegnum hana, rétt fyrir neðan og örlítið til hægri miðju hennar.
Sjá einnig upprunalegu fréttina á Stjörnufræðivefnum.
Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)
2. Sól verður til
Stjörnur verða til í gas- og rykskýjum. Á lokastigum myndunar sinnar hrista þær stundum ærlega upp í hreiðrum sínum, eins og sést á þessari mynd Hubble geimsjónaukans.
Svæðið heitir S106. Það er tvö ljósár á breidd sem er um það bil hálf fjarlægðin milli sólar og næstu sólstjörnu. Í miðjunni lúrir ungstirni, 15 sinnum massameira en sólin, sem þeytir frá sér efni með miklu offorsi og raskar gasinu og rykinu í kring. Efnið sem stjarnan spýr út orsakar ekki aðeins stundaglaslögun skýsins heldur hitar það einnig vetnisgasið upp undir 10.000°C svo það verður óstöðugt. Úr verða þau flóknu mynstur sem sjá má. Ljós þessa glóandi vetnisgass er blátt á myndinni en rauðu svæðin eru kaldari og þykkari gasslæður.
Sjá einnig upprunalegu fréttina á Stjörnufræðivefnum.
Mynd: NASA/ESA
1. Suðurljósin séð úr Alþjóðlegu geimstöðinni
Norðurljósin eru ekki aðeins glæsileg að sjá af jörðu niðri heldur einnig utan úr geimnum. Hér sést reyndar hliðstæða þeirra, suðurljósin, eins og þau birtust geimförum í Alþjóðlegu geimstöðinni þegar þeir þutu yfir Indlandshafið þann 17. september 2011. Suðurljósin eru í um það bil 100 km hæð en geimstöðin mun ofar eða í um 350 km hæð. Geimfararnir horfa því niður á ljósin.
Norður- og suðurljósin verða til við árekstra hraðfleygra rafhlaðinna agna frá sólinni við sameindir í lofthjúpi jarðar. Í þessu tilviki kviknuðu ljósin í kjölfar kórónuskvettu sem varð á sólinni þremur dögum fyrr. Litadýrðina má rekja til mismunandi sameinda í lofthjúpi jarðar sem gefa frá sér ljós með tilteknum lit þegar agnir sólvindsins örva þær. Súrefnissameindir gefa frá sér grænan bjarma, hvítan eða rauðan en nitur bláan eða fjólubláan.
En á myndinni er fleira að sjá. Efst glittir í sólarrafhlöður og aðra hluta geimstöðvarinnar. Undir geimstöðinni er stjörnumerkið Óríon á hvolfi miðað við það sem við eigum að venjast hér á norðurhveli.
Mjög áberandi er næturskin, gulleit rönd efst í lofthjúpi jarðar sem myndast vegna ljósefnahvarfa í háloftunum. Þetta næturskin veldur því að næturhimininn verður aldrei alveg kolsvartur og hefur töluverð áhrif á gæði athugana stjörnufræðinga.
Þessa glæsilegu mynd veljum við stjörnuljósmynd ársins 2011!
Mynd: Image & Science Laboratory, NASA Johnson Space Center
Tenglar
Tengiliður
Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
E-mail: [email protected]
Sími: 8961984
Þetta er fréttatilkynning stj1116 frá Stjörnufræðivefnum.
Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2011
Sævar Helgi Bragason 17. des. 2011 Fréttir
Ár hvert eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins. Hér eru þær tíu bestu að mati Stjörnufræðivefsins.
Stjörnufræði er einstaklega myndræn vísindagrein. Ár hvert eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins, hvort sem er af stjörnuáhugafólki, stjörnufræðingum eða vélrænum sendiherrum jarðarbúa úti í sólkerfinu. Margar þessara mynda eru gullfallegar, oft hreinustu listaverk, sem verðskulda að sem flestir fái notið.
Hér undir höfum við valið tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2011. Þessar myndir voru fyrst og fremst valdar út frá fegurð (sem er huglætt mat hvers og eins), en ekki síður vísindalegu. Við hverja mynd er lýsing á því sem fyrir augum ber. Viðfangsefnin eru nefnilega ekki síður áhugaverð en falleg.
Njótið!
10. Stormur bítur í skottið á sér
Lofthjúpur Satúrnusar er nístingskaldur og alla jafna kyrrlátur og sviplaus. En um það bil einu sinni á hverju Satúrnusarári (um þrjátíu jarðár), þegar vorar á norðurhvelinu, byrjar einhver ólga í skýjaþykkninu sem brýst út sem mikill stormur. Segja mætti að á Satúrnusi sé stormurinn „vorboðinn ljúfi“.
Í byrjun árs geysaði slíkur stormur. Svo stór varð hann að hann umlék alla reikistjörnuna og beit að lokum í skottið á sér. Vindhraðinn náði ef til vill um 500 m/s en þetta er stærsti og öflugasti stormur sem menn hafa séð á Satúrnusi.
Cassini geimfar NASA tók þessa fallegu mynd af skrugguveðrinu í febrúarlok, tólf vikum eftir að stormsins varð fyrst vart. Þunnir hringarnir varpa breiðum skuggum á suðurhvelið. Þrumur og eldingar sáust og heyrðust í mælitækjum geimfarsins en þær urðu til við núning steypiregns og hagléla í skýjum Satúrnusar.
Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI
9. Flóttastjarna á fleygiferð
Stjarnan á þessari óvenjulegu mynd heitir Zeta Ophiuchi. Hún er í 450 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Naðurvalda, blá og massamikil á fleygiferð um geiminn, nærri 90 þúsund km hraða á klukkustund. Eitt sinn tilheyrði hún tvístirnakerfi en þegar förunauturinn sprakk þeytti hann Zeta Ophiuchi á hraðferð um geiminn.
Zeta Ophiuchi er stór stjarna sem gefur frá sér öflugan vind. Vindurinn rekst á ryk og gas sem liggur milli stjarna, þjappar því saman og lýsir það upp. Myndin sýnir afleiðingarnar glögglega en hún var tekin með WISE, innrauðum geimsjónauka NASA. Græni liturinn sýnir venjulegt óraskað ryk en guli liturinn sýnir hvar rykið rekst á vindinn frá stjörnunni. Úr verður myndun sem svipar mjög til stafnhöggs sem til verður þegar skip klífur vatn en á öllu stærri kvarða.
Mynd: NASA/JPL-Caltech/UCLA
8. Tignarlegt risasólgos
Í febrúarlok 2011 varð sérstaklega tignarlegt sólgos á sólinni okkar. Í rúmar 90 mínútur stóð glæsileg slæða úr næstum milljón gráðu heitu rafgasi upp úr sólinni og bylgjaðist eins og fegurstu norðurljós. Útfjólublá augu Solar Dynamics Observatory geimfars NASA fylgdist grannt með sýningunni í einstökum smáatriðum. Hluti efnisins slapp úr krumlum sólar og streymdi út í geiminn en annað féll aftur niður til hennar.
Stjörnufræðingar útbjuggu myndskeið af atburðinum sem sjá má hér (.mov skrá, mælum með að þú hægri smellir og gerir „Save as“). Sjón er sögu ríkari.
Mynd: NASA/Goddard Space Flight Center
7. Himneskur svanur
Á næturhimninum eru ótalmargar glæsilegar geimþokur. Ein þeirra er Messier 17 sem hér sést á mynd sem tekin var með VLT Survey Telescope, nýjum kortlagningarsjónauka ESO.
Messier 17 er stjörnumyndunarsvæði í 5.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum. Þokan er úr gasi og ryki sem ungar, heitar og þungar stjörnur, faldar í þokunni, móta og lýsa upp með sterkri útfjólublárri geislun og öflugum stjörnuvindum. Í þokunni er efni sem dygði í að minnsta kosti 800 sólir.
Í gegnum litla stjörnusjónauka minnir þessi geimþoka marga á gríska bókstafinn omega, á meðan aðrir sjá svan með áberandi langan en bogin háls. Er hún þess vegna einnig þekkt sem Omegaþokan eða Svansþokan.
Sjá upprunalegu fréttina á vefsíðu ESO.
Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Þakkir: OmegaCen/Astro-WISE/Kapteyn Institute
6. Blómlegur gígur
Hér sést ónefndur nokkurra km breiður gígur á tunglinu. Myndina tók Lunar Reconnaissance Orbiter geimfar NASA sem hefur hringsólað um mánann frá árinu 2009.
Fyrir óralöngu rakst stærðarinnar loftsteinn á tunglið. Við áreksturinn þeyttist töluvert magn af ryki og bergi upp á við en féll aftur niður á yfirborðið eins og teppi. Úr varð þetta fallega mynstur sem minnir dálítið á blóm. Ljósasta efnið er næst gígnum en er utar dregur þynnist það og sýnist dekkra.
Ef vel er að gáð sjást stærðarinnar björg í kringum gíginn en líka smærri gígar. Þeir hafa eflaust orðið til þegar stærstu brotinn skullu niður aftur.
Á tunglinu er ekkert andrúmsloft svo öll veðrun er löturhæg. Eina veðrunin er af völdum stöku loftsteina sem berja á yfirborðinu, sólvindsins og dægursveiflu hita. Mynstrið er bjart sem segir okkur að gígurinn er ungur, að minnsta kosti á mælikvarða tunglsins, en hann varð til um svipað leyti og risaeðlurnar réðu ríkjum á jörðinni.
Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University
5. Litrík Tarantúla
Tarantúluþokan er eitt allra fegursta fyrirbæri næturhiminsins. Hún er í Stóra Magellansskýinu og er sú bjartasta sinnar tegundar sem stjörnufræðingar hafa séð í nágrenni okkar í alheiminum.
Á þessari mynd Hubble geimsjónaukans sjást litríkar gas- og rykslæður Tarantúlunnar. Dökkleitar slæður liggja þvers og kruss eftir að sprengistjarna lét að sér kveða. Þegar stjarnan sprakk skilaði hún aftur til skýsins þeim frumefnum sem mynduðu hana. Úr sömu efnum gætu aðrar stjörnur orðið til.
Tarantúluþokan er uppfull af ungum, nýmynduðum stjörnum sem gefa frá sér skært útfjólublátt ljós. Ljósið er svo orkuríkt að það rafar gasið svo það verður rauðglóandi. Fyrir vikið verður ljós Tarantúlunnar svo skært að þótt hún sé í um 160.000 ljósára fjarlægð, langt fyrir utan Vetrarbrautina okkar, er hún sýnileg með berum augum á stjörnubjörtu kvöldi frá suðurhveli jarðar.
Í miðri Tarantúluþokunni er gríðarstór og björt stjörnuþyrping. Í henni er nýuppgötvuð stjarna, RMC 136a1, þyngsta stjarna sem fundist hefur, næstum 300 sinnum massameiri en sólin.
Sjá einnig upprunalegu fréttina á Stjörnufræðivefnum.
Mynd: NASA/ESA
4. Vetrarbraut í nærmynd
Hér sést nærmynd af harla óvenjulegri vetrarbraut. Hún nefnist Centaurus A og er tiltölulega nálægt okkur á stjarnfræðilegan mælikvarða, eða í aðeins um 11 milljón ljósára fjarlægð. Þvert í gegnum hana liggja þykkar og ógegnsæjar rykslæður sem hleypa sýnilegu ljósi ekki í gegn til okkar. Innan þeirra og á bakvið er aragrúi stjarna.
Centaurus A ber öll merki þess að hafa rekist á og runnið saman við aðra vetrarbraut. Höggbylgjur sem mynduðust í hamförunum urðu til þess að ský úr vetnisgasi tóku að rekast saman. Nú er þar mikil stjörnumyndun eins og sjá má á afskekktum svæðum og rauðum flekkum á nærmynd Hubblessjónaukans.
Í þéttum kjarna Centaurus A hvílir líka gríðarstórt og mjög virkt svarthol sem gleypir í sig efni í gríð og erg.
Sjá einnig upprunalegu fréttina á Stjörnufræðivefnum.
Mynd: NASA/ESA
3. Vetrarbrautarrós
Hubblessjónauki NASA og ESA fagnaði 21 árs afmæli sínu í geimnum á árinu. Af því tilefni var sjónaukanum beint að sérstaklega myndrænu vetrarbrautatvíeyki sem kallast Arp 273 og er í 300 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni.
Í Arp 273 eru tvær þyrilþokur sem eru í þann veginn að renna saman í eina. Síðustu ármilljónirnar hafa þær stigið flókinn dans undir stjórn þyngdarkraftsins. Ljóst er að mikið hefur gengið á því báðar hafa aflagað hvor aðra með þyngdartogi sínu.
Efri þyrilþokan er talsvert stærri en sú neðri. Frá okkar sjónarhóli er smærri þokan nánast á rönd en í miðju hennar eru merki um hrinu stjörnumyndunar sem hófst vegna nálægðarinnar við nágrannann. Nokkrir tugir þúsunda ljósára skilja þyrilþokurnar að en á myndinni sést örþunn brú úr stjörnum sem tengir þær saman.
Bláu kekkirnir í efri þyrilþokunni eru þyrpingar ungra, mjög bjartra og heitra stjarna sem gefa frá sér sterkt útfjólublátt ljós. Svo virðist sem stóri, ytri þyrilarmurinn sé hringlaga en slíkt einkenni verður til þegar vetrarbrautir fara í gegnum hvor aðra. Því er útlit fyrir að lítil fylgivetrarbraut hafi steypt sér í gegnum hana, rétt fyrir neðan og örlítið til hægri miðju hennar.
Sjá einnig upprunalegu fréttina á Stjörnufræðivefnum.
Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)
2. Sól verður til
Stjörnur verða til í gas- og rykskýjum. Á lokastigum myndunar sinnar hrista þær stundum ærlega upp í hreiðrum sínum, eins og sést á þessari mynd Hubble geimsjónaukans.
Svæðið heitir S106. Það er tvö ljósár á breidd sem er um það bil hálf fjarlægðin milli sólar og næstu sólstjörnu. Í miðjunni lúrir ungstirni, 15 sinnum massameira en sólin, sem þeytir frá sér efni með miklu offorsi og raskar gasinu og rykinu í kring. Efnið sem stjarnan spýr út orsakar ekki aðeins stundaglaslögun skýsins heldur hitar það einnig vetnisgasið upp undir 10.000°C svo það verður óstöðugt. Úr verða þau flóknu mynstur sem sjá má. Ljós þessa glóandi vetnisgass er blátt á myndinni en rauðu svæðin eru kaldari og þykkari gasslæður.
Sjá einnig upprunalegu fréttina á Stjörnufræðivefnum.
Mynd: NASA/ESA
1. Suðurljósin séð úr Alþjóðlegu geimstöðinni
Norðurljósin eru ekki aðeins glæsileg að sjá af jörðu niðri heldur einnig utan úr geimnum. Hér sést reyndar hliðstæða þeirra, suðurljósin, eins og þau birtust geimförum í Alþjóðlegu geimstöðinni þegar þeir þutu yfir Indlandshafið þann 17. september 2011. Suðurljósin eru í um það bil 100 km hæð en geimstöðin mun ofar eða í um 350 km hæð. Geimfararnir horfa því niður á ljósin.
Norður- og suðurljósin verða til við árekstra hraðfleygra rafhlaðinna agna frá sólinni við sameindir í lofthjúpi jarðar. Í þessu tilviki kviknuðu ljósin í kjölfar kórónuskvettu sem varð á sólinni þremur dögum fyrr. Litadýrðina má rekja til mismunandi sameinda í lofthjúpi jarðar sem gefa frá sér ljós með tilteknum lit þegar agnir sólvindsins örva þær. Súrefnissameindir gefa frá sér grænan bjarma, hvítan eða rauðan en nitur bláan eða fjólubláan.
En á myndinni er fleira að sjá. Efst glittir í sólarrafhlöður og aðra hluta geimstöðvarinnar. Undir geimstöðinni er stjörnumerkið Óríon á hvolfi miðað við það sem við eigum að venjast hér á norðurhveli.
Mjög áberandi er næturskin, gulleit rönd efst í lofthjúpi jarðar sem myndast vegna ljósefnahvarfa í háloftunum. Þetta næturskin veldur því að næturhimininn verður aldrei alveg kolsvartur og hefur töluverð áhrif á gæði athugana stjörnufræðinga.
Þessa glæsilegu mynd veljum við stjörnuljósmynd ársins 2011!
Mynd: Image & Science Laboratory, NASA Johnson Space Center
Tenglar
Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2010
Tengiliður
Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
E-mail: [email protected]
Sími: 8961984
Þetta er fréttatilkynning stj1116 frá Stjörnufræðivefnum.