Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2013

Sævar Helgi Bragason 21. des. 2013 Fréttir

  • Goðafoss, vetrarbrautin og norðurljós

Stjörnufræði er myndræn vísindagrein. Ár hvert eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins, hvort sem er af stjörnuáhugafólki, stjörnufræðingum eða vélvæddum sendifulltrúum jarðarbúa í sólkerfinu. Margar þessara mynda eru gullfallegar, oft hreinustu listaverk, sem verðskulda að sem flestir fái notið.

Hér undir höfum við valið tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2013. Þessar myndir voru fyrst og fremst valdar út frá fegurð (sem er huglætt mat hvers og eins), en ekki síst vísindalegu. Við hverja mynd er lýsing á því sem fyrir augun ber. Viðfangsefnin eru nefnilega ekki síður áhugaverð en falleg.

Njótið og deilið fegurðinni endilega með öðrum!

(ATH! Ef myndirnar raðast skringilega upp, smelltu þá á Refresh í vafranum þínum)

10. Ljós úr myrkrinu

Lupus 3, skuggaþoka, geimþoka
Mynd: ESO/F. Comeron

Stjörnur fæðast í köldum gas- og rykskýjum eins og því sem hér sést. Síðan brjótast þær út úr skýinu með því að feykja gasi og ryki í kringum sig burt. Ungu, heitu, bláu stjörnurnar á myndinni hafa gert einmitt þetta. Skýið kallast Lupus 3 og er að finna í 600 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Sólin okkar varð til í samskonar skýi fyrir tæpum 5 milljörðum ára.

- - -

9. Riddarinn

Ryddaraþokan, Barnard 33, Oríon, Veiðimaðurinn
Mynd: NASA/ESA/Hubble Heritage Team

Í 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni, í stjörnumerkinu Óríon, rétt sunnan við neðstu stjörnuna í Fjósakonunum, er geimþoka sem þekkt er fyrir að líkjast hestshöfði eða riddara á taflborði. Riddaraþokan nefnist hún og er þykkt gas og rykský; fæðingarstaður stjarna. Á myndinni glæsilegu sést Riddarinn í innrauðu ljósi en hún var tekin í tilefni af 23 ára afmæli Hubble geimsjónaukans.

- - -

8. RS Puppis

RS Puppis
Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)-Hubble/Europe Collaboration

Mestan hluta ævinnar eru stjörnur fremur stöðug fyrirbæri. Þær framleiða orku í kjörnum sínum með því að breyta vetni í helíum. En þegar vetnisbirgðirnar eru uppurnar byrja stjörnurnar að breytast. Sumar verða mjög óstöðugar eins og sú sem hér sést. Þetta er RS Puppis, sveiflustjarna af gerð sefíta sem hefur varpað miklu gasi frá sér út í geiminn. Stjarnan þenst út og dregst saman á um fjörutíu dögum og breytir um leið birtu sinni. Þegar ljós frá henni skellur á efninu í kring verður til fyrirbæri sem kallast ljósbergmál.

- - -

7. Norðurljós yfir Námafjalli

Norðurljós yfir Námafjalli
Mynd ©: Stéphane Vetter

Gufastrókar frá hverasvæði Námafjalls stíga upp í stjörnubjartan himinninn. Á himninum dansa norðurljósin hins vegar friðsamlega og eru að mestu grænleit vegna örvaðs súrefnis. Þar fyrir ofan glittir naumlega í rauðleitan bjarma frá jónuðu nitri.

- - -

6. Loftsteinarák við sólarupprás

Loftsteinarák við sólarupprás
Mynd ©: Marat Ahmetvaleev

Að morgni föstudagsins 15. febrúar 2013 birtist óhemju skær vígahnöttur á himninum yfir Chelyabinsk í Rússlandi. Steinninn sprakk í rúmlega 20 km hæð yfir Jörðu og varð ægibjartur. Höggbylgja frá sprengingunni skall frá Chelyabinsk og nágrenni rúmum tveimur mínútum síðar. Um 1.500 manns slösuðust, flestir þegar rúður sprungu og gleri ringdi yfir þá. Rússneski ljósmyndarinn Marat Ahmetvaleev var staddur við ána Miass þegar þetta gerðist og tók hann þá þessa mynd af slóð loftsteinsins sem glitraði fallega hátt á vetararhimninum í morgunsólinni.

- - -

5. Ungur nemur, gamall temur

Feðgar virða fyrir sér halastjörnuna PANSTARRS
Mynd ©: Chris Cook

Upp úr miðjum mars á þessu ári birtist halastjarnan PANSTARRS á himninum þegar hún var á leið frá sólinni. Halastjarnan sást naumlega með berum augum en vel með handsjónaukum og virtu margir hana fyrir sér þannig. Á þessari fallegu mynd sjást feðgar virða PANSTARRS fyrir sér í ljósaskiptunum ofan af lítilli hæð við First Encounter Beach í Massachusetts í Bandaríkjunum.

- - -

4. Þegar heimurinn brosti


Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI

Þann 19. júlí 2013 flaug Cassini geimfar NASA á bak við Satúrnus frá Jörðu séð, inn í skugga plánetunnar, og tók þessa mynd. Á myndinni sést næturhlið Satúrnusar og sjö af fylgitunglum hans, björt dagsbrúnin, meginhringarnir, F-hringurinn (bjarta þétta rákin undir meginhringum) og G- (mjóa rákin daufa ráin) og E-hringurinn (dreifði hringurinn neðst), en hann má rekja til tunglsins Enkeladusar sem spýr vatni í miklum köldum goshverum út í geiminn. Myndin er í náttúrulegum litum og hefur aðeins verið lýst örlítið til að draga fram daufustu hringana.

Þú ert líka á myndinni. Í bakgrunni, rétt fyrir neðan hægri brún Satúrnusar, milli F- og E-hringana, eru Jörðin og tunglið, séð úr meira en 1,4 milljarða km fjarlægð.

- - -

3. Stjarna með hár

Halastjarnan ISON þann 15. nóvember 2013. Mynd: Damian Peach
Mynd: Damian Peach

Stjörnuáhugafólk um allan heim batt miklar vonir við halastjörnuna ISON. Hefðu bjartsýnustu spár ræst hefði hún getað orðið einstaklega björt og fögur á himninum í desember 2013. Þegar halastjarnan komst næst sólu fuðraði hún upp svo ekkert varð úr sjónarspilinu. Vikurnar áður var hún hins vegar mjög myndræn eins og sjá má. Þessi glæsilega mynd var tekin 15. nóvember síðastliðinn, tveimur vikum fyrir sólnánd. Sjá má ótrúleg smáatriði í bláleitunum íshalanum og grænleita gasslykju fremst í höfðinu.

- - -

2. Skrautfjöður sólkerfisins

Satúrnus séður ofan frá
Mynd: NASA/JPL/SSI; Gordan Ugarkovic (samsetning)

Satúrnus er skrautfjöður sólkerfisins. Frá árinu 2004 hefur sendifulltrúi Jarðarbúa, Cassini geimfarið, hringsólað um plánetuna og tekið ótal margar stórfenglegar myndir af henni. Þann 10. október 2013 flaug geimfarið upp fyrir plánetuna og hafði þá þetta einstaka útsýni yfir hana. Sjá má hvernig skuggi plánetunnar fellur á íshringana og á norðurpólnum sést vel sexhyrningurinn, dularfullia veðurkerfið sem geimfarið hefur náð öðrum stórkostlegum myndum af.

- - -

1. Stjörnubjartur himinn yfir Goðafossi

Goðafoss, vetrarbrautin og norðurljós
Mynd ©: Stéphane Vetter

Goðafoss í vetrarbúningi undir Vetrarbrautarslæðunni og litríkum norðurljósum er besta stjörnuljósmynd ársins að mati Stjörnufræðivefsins. Franski ljósmyndarinn Stéphane Vetter tók þessa glæsilegu mynd í mars á þessu ári, en hann er skuggaveran hægra megin á myndinni.

Vetrarbrautarslæðan liggur í boga yfir himinninn eins og norðurljósin. Innan um stjörnuskarann glttir í dökku rykskýin sem innihalda hráefnin í nýjar stjörnur. Næst sjóndeildarhringnum vinstra megin er Óríon að koma upp á himininn en bleiki bjarminn næst fjallinu er Sverðþokan mikla. Bjarta stjarnan vinsta megin fyrir ofan Óríon er gasrisinn Júpíter, sem þá var staddur í Nautsmerkinu.

Tengt efni

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
E-mail: [email protected]
Sími: 8961984